Translate

þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Mynd dagsins er frá stað á meginlandinu sem ég er óskaplega hrifin af. Staðurinn er Pelionskaginn í sunnan verðri Þessalíusýslunni. Þetta er hálendur skagi, gróðri vaxinn, þar sem þorpin hanga í bröttum hlíðum. Hlíðarnar steypast niður að gullnum ströndum og túrkísbláum sjó. Grikkir hafa að vissu leyti haldið þessum skaga svolítið fyrir sig, en þeir ferðamenn sem slæðast þangað og þeir eru þó nokkrir, vilja helst dvelja þar langdvölum. Þarna blandast fjall og strönd saman á fullkominn hátt og Pelionskaginn er stórkostlega fallegur á hvaða árstíma sem er og býður upp á gönguferðir á sumrin og skíði á veturna. Ég hugsa alltaf til sögunnar sem ég læt fylgja hér með þegar ég er í Pelion.
Þegar Guð kallaði á þjóðir heimsins til að gefa hverri fyrir sig landskika til að búa á, komu Grikkir allt of seint til fundarins og Guð var búinn að gefa öll landsvæði jarðarinnar. Þetta voru Grikkirnir auðvitað ekki ánægðir með og nöldruðu og kveinkuðu sér svo mikið að Guð ákvað að lokum að gefa þeim landið sem hann hafði haldið eftir fyrir sjálfan sig, Grikkland!



Engin ummæli:

Skrifa ummæli